Ferill 886. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2028  —  886. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um skrifstofur og skrifstofustjóra í ráðuneytinu.


     1.      Hvaða skrifstofur eru í ráðuneytinu og hvaða skrifstofum stýrir skrifstofustjóri? Hver eru verkefni hverrar skrifstofu og hversu margir starfsmenn starfa undir skrifstofustjóra á hverri skrifstofu?
    Skrifstofur ráðuneytisins eru fimm og lúta þær allar stjórn skrifstofustjóra: Skrifstofa mennta- og vísindamála, skrifstofa menningarmála, skrifstofa stefnumótunar og fjárlagagerðar, skrifstofa laga og stjórnsýslu og skrifstofa yfirstjórnar.
     Skrifstofa mennta- og vísindamála: Verkefni skrifstofunnar er að starfa að málum leikskólastigs, grunnskólastigs, framhaldsskólastigs og háskólastigs, einnig námsaðstoð, tónlistarnám, framhaldsfræðsla og vísindamál. Skrifstofan hefur umsjón með skyldum ráðherra um að annast lögbundna yfirstjórn lægra settra stjórnvalda og annast eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum stjórnvalda. Auk þess að tryggja lögbundið eftirlit með öðrum aðilum sem starfa að stjórnarframkvæmd á málefnasviði ráðuneytisins. Starfsmenn eru 22.
     Skrifstofa menningarmála: Verkefni skrifstofunnar er að starfa að málum sem varða menningu og listir, íþrótta- og æskulýðsmál og fjölmiðlun. Skrifstofan annast einnig um fjármál og rekstur Miðstöðvar íslenskra bókmennta, Gljúfrasteins – Húss skáldsins og Safns Jóns Sigurðssonar – Menningarseturs á Hrafnseyri. Skrifstofan hefur umsjón með skyldum ráðherra á sínu sviði um að annast lögbundna yfirstjórn lægra settra stjórnvalda og annast eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum stjórnvalda og aðilum sem fá styrki eða framlög. Starfsmenn eru 11 í 10,35 stöðugildum.
     Skrifstofa stefnumótunar og fjárlagagerðar: Skrifstofan sér um samræmingu, söfnun og miðlun upplýsinga vegna stefnumótunar og árangursmats á málefnasviðum ráðuneytisins. Hún sér um vinnuferli við mótun stefnu ráðherra og áætlana um framkvæmd þeirra og hefur umsjón með fjárlagagerð og skilum á fjárlagaupplýsingum. Skrifstofan hefur eftirlit með því að fjárskuldbindingar samræmist stefnum, áætlunum og heimildum og einnig er jafnrétti kynjanna á málefnasviðum ráðuneytisins á verkefnaskrá skrifstofunnar. Starfsmenn eru 9.
     Skrifstofa laga og stjórnsýslu: Skrifstofan sér um vinnuferli og formkröfur við undirbúning þingmála, reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla ráðherra auk samninga sem ráðuneytið á aðild að. Skrifstofan sér um stjórnsýslukærur, kvartanir og önnur erindi sem varða eftirlit ráðherra með starfsemi lægra settra stjórnvalda auk álita á túlkun laga og reglugerða á málefnasviðum ráðuneytisins. Einnig er málaskrá og skjalastýring innan ráðuneytisins á verkefnaskrá skrifstofunnar. Þá sér skrifstofan um samskipti vegna undirbúnings á staðfestingu og framkvæmd alþjóðlegra samninga og samskipti vegna þingmála við forsætisráðuneytið og Alþingi og við umboðsmann Alþingis. Starfsmenn eru 11 í 10,8 stöðugildum.
     Skrifstofa yfirstjórnar: Skrifstofan mótar áherslur í starfi ráðuneytisins og sér um samhæfingu á starfsemi þess. Á verkefnaskrá skrifstofunnar er starfsmannahald, rekstur ráðuneytisins og þjónusta við aðrar skrifstofur sem og verklagsreglur, innra eftirlit og þróun og umbætur í starfsemi ráðuneytisins. Skrifstofan sér um dagskrá ráðherra og undirbúning funda og mála er varða þingstörf ráðherra. Skrifstofan sér einnig um almenna upplýsingagjöf og samskipti við fjölmiðla. Starfsmenn eru 16 í 14,3 stöðugildum.

     2.      Hversu margir skrifstofustjórar heyra undir aðra skrifstofustjóra eða stýra ekki skrifstofu sjálfir?
    Enginn.

     3.      Hvaða aukastörf og hlunnindi fylgja starfi hvers skrifstofustjóra og hvert er hlunnindamat starfa þeirra?
    Seta í nefndum, ráðum og starfshópum á vegum ráðuneytisins er skilgreind sem hluti af störfum skrifstofustjóra og því ekki greitt sérstaklega fyrir þá vinnu. Kjararáð úrskurðaði áður um laun og starfskjör skrifstofustjóra og fá þeir greidd föst laun og einingar samkvæmt síðasta úrskurði þess. Nú hafa ákvarðanir um laun og starfskjör skrifstofustjóra verið flutt undir BHM.
    Skrifstofustjórar hafa farsíma til umráða og kostnaður vegna þeirra er greiddur af ráðuneytinu. Önnur hlunnindi eru ekki greidd.

     4.      Hversu mikla yfirvinnu vinnur hver skrifstofustjóri að jafnaði á mánuði, talið í klukkustundum?
    Yfirvinna skrifstofustjóra er breytileg eftir árstíðum, mánuðum og skrifstofum. Meðaltal yfirvinnu á mánuði var á árinu 2018 á bilinu 3–43 stundir á mánuði hjá skrifstofustjórum.

     5.      Hvernig tengjast skrifstofurnar í ráðuneytinu undirstofnunum þess?
    Stofnanir ráðuneytisins hafa tvo tengiliði, annan á fagskrifstofum og hinn á skrifstofu stefnumótunar og fjárlaga. Í fjárveitingabréfum til stofnana er m.a. kveðið á um formleg samskipti milli ráðuneytis og stofnana en þess utan eru samskiptin eftir þörfum og þeim verkefnum sem eru í gangi hverju sinni.